Valur vann sinn fyrsta sigur í tvo mánuði í Bestu deildinni í fótbolta er liðið sigraði FH, 2:1, í 10. umferðinni í dag. Valur fór upp fyrir Tindastól og Stjörnuna með sigrinum og er liðið með 12 stig í sjötta sæti. FH er í þriðja sæti og nú þremur stigum á eftir toppliðum Þróttar og Breiðabliks.
Elísa Lana Sigurjónsdóttir var nálægt því að skora stórkostlegt mark fyrir FH á 10. mínútu en hún skaut í slána af 30 metra færi. Fimm mínútum síðar barst boltinn til Fanndísar Friðriksdóttur í teig FH en Sandra Sigurðardóttir gerði vel í að verja frá henni í úrvalsfæri.
FH átti nokkur langskot það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en ekkert sem Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Vals lenti í miklum vandræðum með. Hinum megin fékk Jordyn Rhodes fínt færi á 37. mínútu en Sandra Sigurðardóttir varði skot hennar rétt utan teigs örugglega.
Var staðan í hálfleik markalaus og ekki mikið um mjög opin færi.
Thelma Karen Pálmadóttir fékk eitt slíkt á 51. mínútu þegar hún slapp ein í gegn eftir mikinn sprett frá Elísu Lönu en Tinna gerði glæsilega í að koma aðeins út úr markinu og verja.
Fyrsta markið kom svo hinum megin á 60. mínútu er Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir kom Val yfir er hún afgreiddi boltann í hornið úr miðjum teignum eftir að FH-ingar náðu ekki að koma boltanum í burtu eftir horn frá Helenu Ósk Hálfdánardóttur.
Elísa Lana fékk úrvalsfæri til að jafna þremur mínútum síðar en hún setti boltann framhjá af mjög stuttu færi eftir glæsilegan sprett og fyrirgjöf hjá Ídu Marín Hermannsdóttur. Ingibjörg Magnúsdóttir skaut svo rétt framhjá á 69. mínútu og FH-ingar voru að hóta jöfnunarmarki.
Það voru hins vegar Valskonur sem skoruðu næsta mark og það gerði Helena Ósk Hálfdánardóttir á 83. mínútu með glæsilegu skoti í bláhornið af 20 metra færi.
Aðeins tveimur mínútum síðar minnkaði Ingibjörg Magnúsdóttir muninn er hún ýtti boltanum yfir marklínuna af stuttu færi eftir glæsilegan undirbúning hjá Maya Hansen og stefndi í spennandi lokamínútur. Mörkin urðu þó ekki fleiri og Valskonur fögnuðu sigri.