Breiðablik og Valur sitja bæði hjá þegar dregið verður til 1. umferðar í undankeppni Meistaradeildar kvenna í fótbolta klukkan 10 í fyrramálið.
Bæði liðin verða síðan í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður til 2. umferðar undankeppninnar tveimur klukkutímum síðar.
Keppnin verður með nokkuð breyttu sniði tímabilið 2025-26 en nú verður leikið í riðlum í bæði 1. og 2. umferðinni. Í þriðju umferð verður síðan leikið um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Breiðablik og Valur eru sitt í hvorum hópnum fyrir dráttinn á morgun, Breiðablik sem Íslandsmeistari í „meistarahópi“ og Valur í „deildarhópi“ en Valskonur komust í keppnina með því að enda í öðru sæti Bestu deildarinnar í fyrra.
Meðal mögulegra mótherja Breiðabliks í 2. umferð eru:
Dinamo, Hvíta-Rússlandi
Young Boys, Sviss
Hibernian, Skotlandi
Rauða stjarnan, Serbíu
OH Leuven, Belgíu
Farul Constanta, Rúmeníu
HJK Helsinki, Finnlandi
GKS Katowice, Póllandi
Í þennan hóp bætast síðan sex sigurvegarar riðla í fyrstu umferðinni.
Valur sleppur við mörg mjög sterk lið en getur mætt einhverjum af þessum liðum:
Inter Mílanó, Ítalíu
Metalist Kharkiv, Úkraínu
Sporting Braga, Portúgal
PSV Eindhoven, Hollandi
Austria Vín, Austurríki
Nordsjælland, Danmörku
Aktobe, Kasakstan
Leikir í 1. umferðinni fara fram 30. júlí og 3. ágúst en 2. umferðin er leikin 27. og 30. ágúst.