ÍBV tók á móti Aftureldingu í Bestu deild karla í fótbolta á Þórsvelli í Vestmannaeyjum dag. Leikið var í blíðskaparveðri og enduðu leikar 2:1 fyrir gestunum úr Mosfellsbæ.
Þetta er fyrsti útsigur Aftureldingar og fyrstu mörk liðsins á útivelli og liðið er nú komið upp í 6. sæti deildarinnar með 17 stig. ÍBV er áfram í 9. sætinu með 14 stig.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur og voru með stjórn á honum nánast allan fyrri hálfleikinn. Þegar rétt tæplega korter var liðið af leiknum átti Sverrir Hjaltested, sóknarmaður ÍBV, frábæra stungusendingu inn á Hermann Þór, sem stakk varnarmenn Aftureldingar af.
Skot hans fór hinsvegar í stöngina og sem betur fer fyrir Eyjamenn datt boltinn beint fyrir fætur Vicente Valor, miðjumans ÍBV, og hann setti boltann í opið mark gestanna. 1:0 fyrir ÍBV.
Á 23. mínútu komst Afturelding í sitt allra besta færi í fyrri hálfleik. Elmar Kári Cogic, sóknarmaður Mosfellinga, komst þá í gott svæði inni í teig heimamanna en Marcel Zapytowski varði frá honum.
Varslan var hinsvegar beint í fætur Benjamin Stokke, en Marcel sá einnig við honum. Marcel fékk svo brot þegar þeir lentu í árekstri í kjölfarið, sem betur fer fyrir Eyjamenn því Afturelding kom boltanum í markið í kjölfarið.
Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks stjórnuðu Eyjamenn leiknum og hleyptu Aftureldingu ekki í nein marktækifæri af viti. Fleiri urðu mörkin hinsvegar ekki, þótt Vicente Valor hafi verið hársbreidd frá því að bæta við sínu öðru marki eftir rúmlega 35. mínútuna leik. 1:0 fyrir heimamönnum í hálfleik.
Eitthvað hefur hálfleiksræðan hjá Magnúsi Má Einarssyni, þjálfara Aftureldingar, kveikt í gestunum því þeir mættu í allt öðrum gír út í síðari hálfleikinn. Á 54. mínútu skoraði Benjamin Stokke frábært skallamark eftir fyrirgjöf frá Aroni Jóhannssyni, sem hafði komið inn á sem varamaður í fyrri hálfleik. Staðan 1:1 og gestirnir betri það sem af var síðari hálfleik.
Aðeins mínútu síðar komust gestirnir svo yfir þegar Sævar Atli Hugason sendi boltann til fyrrnefnds Arons Jóhannssonar utarlega í teignum og hann kláraði listavel í hægra hornið. Óverjandi fyrir Marcel í marki Eyjamanna og staðan orðin 2:1 fyrir Aftureldingu.
Eyjamenn reyndu hvað þeir gátu að jafna en gestirnir féllu aftar og leyfðu heimamönnum að halda boltanum, en hleyptu þeim lítið sem ekkert í gegnum sig og sóknarleikur ÍBV var mjög bitlaus í síðari hálfleik.
Gestunum tókst að halda ÍBV í skefjum út leikinn og unnu, eins og áður sagði, frábæran 2:1 útisigur. Þeim tekst með sigrinum að komast upp um miðja deild í bili, þremur stigum á undan ÍBV. Eyjamenn eru hinsvegar hægt og rólega að nálgast fallsvæðið eftir frábæra byrjun á mótinu.