„Frammistaðan var köflótt,“ sagði Þorlákur Árnason þjálfari ÍBV í samtali við mbl.is eftir tap, 2:0, gegn Fram á útivelli í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Fram skoraði bæði mörkin sín í fyrri hálfleik.
„Fram var búið að fara tvisvar inn í vítateiginn okkar og þá var staðan orðin 2:0. Það var mikil stöðubarátta í fyrri hálfleik og mér fannst við góðir úti á vellinum. Við vorum góðir að finna stöður en vorum ekki góðir á síðasta þriðjung.
Mörkin sem við fáum á okkur – hvað gerðist? Það voru ódýr mörk og eftir það var á brattann að sækja. Mér fannst við eiga að skora í fyrri hálfleik en það vantaði gæði á síðasta þriðjungi. Þetta var jafn leikur og allt í einu var staðan orðin 2:0,“ sagði Þorlákur.
Margir sóknarmenn eru fjarverandi hjá ÍBV vegna meiðsla og liðið saknaði þeirra í dag.
„Við þurfum að hafa meira fyrir því að skora núna. Við vissum að þetta yrði erfitt, sérstaklega þegar þú lendir í svona miklum áföllum. Það er samt engin afsökun fyrir neinu,“ sagði Þorlákur.