Haukakonur gerðu góða ferð suður með sjó í kvöld þegar þær sigruðu Keflvíkinga á útivelli, 3:2, í 1. deild kvenna í knattspyrnu.
Haukar löguðu með því stöðu sína í neðri hluta deildarinnar, fóru upp fyrir ÍA og eru með tíu stig í sjöunda sæti af tíu liðum deildarinnar. Keflavík er í sjötta sætinu með 12 stig og missti af tækifæri til að komast nær efstu liðunum.
Ariela Lewis kom Keflavík yfir strax á 6. mínútu en Elín Björg Norðfjörð jafnaði fljótlega fyrir Hauka. Rut Sigurðardóttir kom Haukum í 2:1 á 61. mínútu en fimm mínútum síðar jafnaði Marín Rún Guðmundsdóttir fyrir Keflavík.
Þegar allt stefndi í jafntefli skoraði Halla Þórdís Svansdóttir sigurmark Hauka á þriðju mínútu í uppbótartímanum, 3:2.