Jón Daði Böðvarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leið á heimaslóðirnar á Selfossi.
Knattspyrnudeild Selfoss hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 13 í dag og samkvæmt heimildum mbl.is verður Jón Daði kynntur til leiks hjá félaginu.
Jón Daði, sem er 33 ára gamall, er uppalinn Selfyssingur og hefur ekki leikið með öðru íslensku liði en hann spilaði með meistaraflokki Selfoss á árunum 2009 til 2012 og lék með liðinu bæði ár þess í efstu deild, 2010 og 2012. Hann er frá þeim tíma bæði leikjahæstur og markahæstur hjá félaginu í deildinni.
Jón Daði hefur leikið sem atvinnumaður erlendis frá 2013. Fyrst í Noregi og Þýskalandi en síðan á Englandi frá 2016 þar sem hann lék með Wolves, Reading, Millwall, Bolton, Wrexham og síðast með Burton Albion.
Jón Daði var í talsverðu hlutverki hjá íslenska landsliðinu á bæði EM 2016 og HM 2018 og skoraði m.a. í sigurleiknum fræga gegn Austurríki á Evrópumótinu í Frakklandi árið 2016. Hann á að baki 64 landsleiki og skoraði í þeim fjögur mörk.
Jón Daði er með leikjahærri knattspyrnumönnum Íslands en hann hefur spilað 435 deildaleiki á ferlinum, heima og erlendis, og skorað í þeim 75 mörk.
Ljóst er að hann verður góður liðsauki fyrir lið Selfyssinga sem er í harðri botnbaráttu í 1. deildinni eftir að hafa unnið 2. deildina á síðasta tímabili.