Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson skrifaði undir tveggja ára samning við uppeldisfélagið sitt Selfoss í miðbæ bæjarins í gær.
Hann kemur til Selfoss eftir 13 ára fjarveru í atvinnumennsku. Þar lék hann með liðum í Noregi, Þýskalandi og Englandi.
Jón Daði er með mikla ástríðu fyrir sínum heimabæ og gat ekki hugsað sér á endanum að spila fyrir annað íslenskt lið.
Hann var þó spurður af blaðamanni hvort að Selfoss hefði eitthvað þurft að sannfæra hann.
„Mikilvægast fyrir mig var hvað Selfoss hafði fram að bjóða, ekki bara fótboltalega séð heldur líka upp á næstu skref eftir ferilinn.
Eftir mörg ár í atvinnumennsku fer maður að hugsa um framtíð sína eftir fótboltann því ferillinn er stuttur.
Selfoss er með spennandi verkefni upp á þjálfun að gera sem snýst að því að hjálpa ungum leikmönnum.
Ég fæ tækifæri til þess að finna mína fjöl í því til að byrja með og reyna átta mig á hvað ég vil gera því ég hef ekki svar við því núna. Mér finnst það spennandi.
Annars er þetta auðvitað mitt samfélag og ég átti æðislega æsku hér. Þetta hljómaði alltaf rétt,“ sagði Jón Daði í samtali við mbl.is.
Þannig að þú gætir séð þig fyrir þér í þjálfun?
„Að einhverju leyti já. Ég veit ekki í hverju og hversu langt ég vil fara. Hvort ég verði einhver aðalþjálfari hef ég ekki hugmynd um, mér finnst það ólíklegt eins og staðan er í dag en aldrei, segja aldrei.
Þess vegna finnst mér gott að byrja rólega, vera mögulega með fótboltanámskeið eða eitthvað álíka. Finna síðan hægt og rólega hvaða þjálfun ég gæti haft áhuga á,“ bætti Jón Daði við.