Magnaðir Spánverjar unnu dauðariðilinn

Spánverjar fagna eftir að hafa náð forystunni.
Spánverjar fagna eftir að hafa náð forystunni. AFP/Ina Fassbender

Spánn hafði betur gegn Ítalíu, 1:0, í 2. umferð B-riðils, oft kallaður dauðariðillinn, á Evrópumóti karla í knattspyrnu í Gelsenkirchen í kvöld. Með miklum ólíkindum var að Spánn, sem hafði mikla yfirburði, hafi ekki skorað fleiri mörk.

Spánn er þar með búið að vinna riðilinn og tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum með glæsibrag. Ítalía er í öðru sæti með með þrjú stig á meðan Albanía og Króatía eru bæði með eitt stig.

Spánverjar hófu leikinn af feikna krafti og fengu sannkallað dauðafæri eftir aðeins tveggja mínútna leik.

Nico Williams fór þá illa með Giovanni Di Lorenzo á vinstri kantinum, gaf fyrir á Pedri sem átti fastan skalla af stuttu færi en Gianluigi Donnarumma varði glæsilega yfir markið.

Williams komst svo sjálfur nálægt því að koma Spánverjum yfir á tíundu mínútu þegar hann fékk fasta fyrirgjöf frá Álvaro Morata af vinstri kantinum en skalli Williams af örstuttu færi, sannkölluðu dauðafæri, fór framhjá markinu.

Giovanni Di Lorenzo og Nico Williams eigast við í kvöld.
Giovanni Di Lorenzo og Nico Williams eigast við í kvöld. AFP/Patrícia de Melo Moreira

Ótrúlegir yfirburðir Spánverja

Áfram voru Spánverjar hættulegri. Á 24. mínútu átti hinn 16 ára gamli Lamine Yamal frábæran sprett, kom boltanum til Morata sem náði svo skotinu úr nokkuð þröngu færi hægra megin úr vítateignum en Donnarumma varði vel með fótunum.

Mínútu síðar átti Fabián Ruiz þrumuskot af löngu færi en Donnarumma varði enn á ný vel, að þessu sinni yfir markið.

Skömmu síðar kom Dani Carvajal boltanum út á Rodri eftir laglegt spil, hann var rétt innan vítateigs og tók skotið en það hafnaði að lokum í varnarmanni Ítalíu.

Undir lok fyrri hálfleiks lét Fabián Ruiz aftur vaða fyrir utan vítateig en að þessu sinni var skotið nokkurn veginn beint á Donnarumma.

Fyrsta skot Ítala í leiknum kom svo á 45. mínútu. Það átti Federico Chiesa eftir snarpa sókn en skotið við vítateigslínuna hægra megin fór töluvert yfir markið.

Staðan í leikhléi var því, þótt ótrúlegt mætti virðast, markalaus eftir mikla yfirburði Spánar í fyrri hálfleiknum.

Gianluigi Donnarumma ver glæsilega í kvöld.
Gianluigi Donnarumma ver glæsilega í kvöld. AFP/Ozan Kose

Í síðari hálfleik héldu Spánverjar uppteknum hætti. Á 51. mínútu fékk Pedri besta færi leiksins þegar Marc Cucurella fékk boltann frá Williams í vítateignum, lagði hann út á Pedri sem skaut viðstöðulaust framhjá markinu af stuttu færi.

Tveimur mínútum síðar átti Pedri þrumuskot fyrir utan vítateig en það fór beint á Donnarumma sem varði enn einu sinni.

Ísinn loks brotinn

Tveimur mínútum eftir það, á 55. mínútu, var ísinn loks brotinn og þurfti sjálfsmark til.

Williams gaf þá fyrir frá vinstri, Morata náði að slæma höfðinu í boltann, Donnarumma kom nokkrum fingrum í hann þaðan sem boltinn fór í hnéð á Riccardo Calafiori, miðverði Ítalíu, og í netið.

Spánverjar fagna markinu.
Spánverjar fagna markinu. AFP/Kenzo Tribouillard

Spánverjar voru ekki hættir og lét Morata vaða fyrir utan vítateig á 58. mínútu en Donnarumma varði vel yfir.

Williams tók hornspyrnuna í kjölfarið, fann þar Robin Le Normand á fjærstönginni, hann skallaði að marki en varamaðurinn Andrea Cambiaso bjargaði á marklínu.

Mínútu síðar reyndi Yamal glæsilegt skot rétt utan vítateigs sem fór naumlega framhjá samskeytunum.

Hinn stórhættulegi Williams minnti á sig á 71. mínútu þegar hann fór einu sinni sem áður illa með Di Lorenzo, leitaði inn að miðju, þrumaði að marki utarlega vinstra megin úr vítateignum og frábært skotið small í þverslánni þaðan sem boltinn fór yfir markið.

Þremur mínútum síðar reyndi Lorenzo Pellegrini skot beint úr aukaspyrnu en prýðilega spyrnan fór yfir markið, þó Unai Simón í marki Spánar virtist vera með allt sitt á hreinu og hefði eflaust varið.

Fjórum mínútum fyrir leikslok fékk Ítalía hornspyrnu. Hún barst á nærstöngina þar sem varamaðurinn Bryan Cristante náði að slæma fætinum í boltann en skotið var laust og Simón greip boltann auðveldlega.

Undir lokin fékk varamaðurinn Ayoze Pérez tvö keimlík opin færi vinstra megin í vítateignum en í bæði skiptin varði hinn magnaði Donnarumma frábærlega.

Á sjöttu mínútu uppbótartíma bjargaði Aymeric Laporte á ögurstundu með því að skalla boltann aftur fyrir í horn.

Ekkert kom út úr hornspyrnunni og niðurstaðan því afskaplega sanngjarn sigur Spánar.

Byrjunarliðin í kvöld:

Spánn: (4-3-3)

Mark: Unai Simón.
Vörn: Dani Carvajal, Robin Le Normand, Aymeric Laporte, Marc Cucurella.
Miðja: Pedri (Álex Baena 71.), Rodri, Fabían Ruiz.
Sókn: Lamine Yamal (Ferran Torres 71.), Álvaro Morata (Mikel Oyarzabal 78.), Nico Williams (Ayoze Pérez 78.).

Ítalía: (4-5-1)

Mark: Gianluigi Donnarumma.
Vörn: Giovanni Di Lorenzo, Alessandro Bastoni, Riccardo Calafiori, Federico Dimarco.
Miðja: Nicolo Barella, Jorginho (Bryan Cristante 46.), Davide Frattesi (Andrea Cambiaso 46.), Lorenzo Pellegrini (Giacomo Raspadori 82.), Federico Chiesa (Mattia Zaccagni 64.).
Sókn: Gianluca Scamacca (Mateo Retegui 64.).

Fylgst var með gangi mála eftir því sem vatt fram í leiknum.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 27. JÚNÍ

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 27. JÚNÍ

Útsláttarkeppnin