Austurríki vann mikilvægan sigur á Póllandi

Christoph Baumgartner fagnar eftir að hafa komið Austurríki yfir að …
Christoph Baumgartner fagnar eftir að hafa komið Austurríki yfir að nýju. AFP/Axel Heimken

Austurríki vann sterkan sigur á Póllandi, 3:1, þegar liðin mættust í annarri umferð D-riðils á Evrópumóti karla í fótbolta í Berlín í Þýskalandi í dag.

Austurríki er þar með komið með þrjú stig og á prýðis möguleika á því að komast í 16-liða úrslit en Pólland er án stiga á botni riðilsins og líkurnar á því að liðið komist upp úr honum fara þverrandi.

Holland og Frakkland eru einnig í riðlinum, eru bæði með þrjú stig og mætast í kvöld.

Austurríki byrjaði leikinn mun betur, setti mikla pressu á Pólland og uppskar mark strax á níundu mínútu.

Philipp Mwene gaf þá fyrir af vinstri kantinum á Gernot Trauner sem náði hörkuskalla á nærstönginni sem Wojciech Szczesny réði ekki við.

Gernot Trauner kom Austurríki yfir með góðum skalla.
Gernot Trauner kom Austurríki yfir með góðum skalla. AFP/Ronny Hartmann

Strax í næstu sókn barst boltinn til Marcel Sabitzer í vítateignum eftir mistök í vörn Póllands en Jan Bednarek komst fyrir skot Sabitzer.

Á 17. mínútu fékk Pólland sitt fyrsta færi í leiknum þegar Piotr Zielinski þrumaði að marki við vítateigslínuna, boltinn fór í höndina á Mwene sem þó hélt henni nægilega mikið upp við líkamann og vítaspyrna því ekki dæmd líkt og Zielinski óskaði eftir.

Pólland tók fyrri hálfleikinn yfir

Mínútu síðar fékk Nicola Zalewski dauðafæri þegar Przemyslaw Frankowski renndi boltanum af hægri kantinum yfir á fjærstöngina en skot Zalewski úr vítateignum fór yfir markið.

Skömmu síðar, á 21. mínútu, virtist Christoph Baumgartner vera að sleppa einn í gegn eftir góða stungusendingu Florian Grillitsch en Szczesny var vel á verði, kom út fyrir vítateiginn og skallaði boltann frá.

Zielnski gerði sig aftur líklegan á 27. mínútu þegar þrumuskot hans rétt utan vítateigs stefndi að marki en Philipp Lienhart gerði vel í að skalla boltann frá.

Eftir hálftíma leik bar pressan svo árangur þegar Pólland jafnaði metin. Eftir þunga sókn barst boltinn til Jan Bednarek sem skaut að marki í vítateignum, boltinn fór í Lienhart þaðan sem hann barst til Krzysztof Piatek sem lagði boltann í netið af stuttu færi.

Krzysztof Piatek fagnar jöfnunarmarki sínu.
Krzysztof Piatek fagnar jöfnunarmarki sínu. AFP/John MacDougall

Á 39. mínútu komust Austurríkismenn í kjörstöðu, þrír á tvo í skyndisókn. Baumgartner kom þá boltanum til hliðar á Sabitzer í vítateignum, hann lagði boltann fyrir sig og skaut að marki úr dauðafæri en Bednarek komst fyrir skotið.

Sabitzer var aftur á ferðinni þremur mínútum síðar þegar hann átti þrumuskot fyrir utan vítateig en það fór rétt framhjá markinu. Szceszny var mættur í hornið og hefði að öllum líkindum varið skotið.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks tók Zielinski gott skot beint úr aukaspyrnu en Patrick Pentz gerði vel í að verja boltann aftur fyrir.

Ekkert kom út úr hornspyrnunni og staðan því 1:1 að loknum fjörugum fyrri hálfleik.

Austurríki komst yfir á ný

Síðari hálfleikurinn fór nokkuð rólega af stað áður en Stefan Posch átti fínan skalla eftir hornspyrnu varamannsins Patrick Wimmer á 51. mínútu en Szceszny átti ekki í vandræðum með að verja.

Skömmu síðar hélt Sabitzer áfram að minna sig á þegar hann var skyndilega með pláss vinstra megin í vítateignum en Bednarek elti hann uppi og gerði vel í að komast fyrir skotið.

Á 66. mínútu komst Austurríki yfir að nýju.

Varamaðurinn Alexander Prass, sem var nýkominn inn á, átti þá mjög góða sendingu á Christoph Baumgartner sem var skyndilega með mikið pláss við D-bogann, lék með boltann inn í vítateig og lagði boltann snyrtilega framhjá Szczesny og í netið.

Stuttu síðar, á 69. mínútu, átti varamaðurinn Karol Swiderski hörkutilraun fyrir utan vítateig en fast skotið fór nokkurn veginn beint á Pentz sem varði boltann til hliðar.

Á 75. mínútu fékk Wimmer dauðafæri til þess að koma Austurríki tveimur mörkum yfir. Hann fékk þá boltann frá Baumgartner rétt innan vítateigs, náði skotinu en Szczesny var snöggur niður og varði vel til hliðar.

Arnautovic gerði út um leikinn

Mínútu síðar reyndi Nicolas Seiwald hörkuskot fyrir utan vítateig en það endaði í fanginu á Szczesny.

Mínútu eftir það fékk Austurríki dæmda vítaspyrnu. Sabitzer slapp þá einn í gegn, lék á Szczesny sem felldi hann og pólski markvörðurinn fékk gult spjald fyrir vikið.

Marko Arnautovic steig á vítapunktinn og skoraði af öryggi með því að senda Szczesny í rangt horn, staðan orðin 3:1.

Marko Arnautovic fagnar marki sínu.
Marko Arnautovic fagnar marki sínu. AFP/John MacDougall

Á 83. mínútu lét Posch vaða fyrir utan vítateig en Szczesny gerði frábærlega í að verja stórhættulegt skotið aftur fyrir.

Tveimur mínútum síðar slapp Konrad Laimer einn í gegn, lék á Szczesny og átti bara eftir að renna boltanum í autt markið en skaut framhjá úr ögn þröngu færi.

Á þriðju mínútu uppbótartíma fékk varamaðurinn Kamil Grosicki dauðafæri til að minnka muninn fyrir Pólland en hitti ekki boltann þegar hann var einn vinstra megin við markteiginn og skotið framhjá.

Þar við sat og sterkur tveggja marka sigur Austurríki niðurstaðan.

Byrjunarliðin:

Pólland: (3-5-2)

Mark: Wojciech Szczesny.
Vörn: Jan Bednarek, Pawel Dawidowicz, Jakub Kiwior.
Miðja: Przemyslaw Frankowski, Jakub Piotrowski (Jakub Moder 46.), Bartosz Slisz (Kamil Grosicki 75.), Nicola Zalewski, Piotr Zielinski (Kacper Urbanski 87.).
Sókn: Adam Buksa (Robert Lewandowski 60.), Krzysztof Piatek (Karol Swiderski 60.).

Austurríki: (4-5-1)

Mark: Patrick Pentz.
Vörn: Stefan Posch, Gernot Trauner (Kevin Danso 59.), Philipp Lienhart, Philipp Mwene (Alexander Prass 63.).
Miðja: Nicolas Seiwald, Florian Grillitsch (Patrick Wimmer 46.), Christoph Baumgartner (Romano Schmid 80.), Konrad Laimer, Marcel Sabitzer.
Sókn: Marko Arnautovic (Michael Gregoritsch 81.).

Fréttin var uppfærð eftir því sem fram vatt í leiknum.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 27. JÚNÍ

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 27. JÚNÍ

Útsláttarkeppnin