Úkraína með mikilvægan sigur

Roman Yaremchuk fagnar marki sínu í dag
Roman Yaremchuk fagnar marki sínu í dag AFP/KENZO TRIBOUILLARD

Úkraína sigraði Slóvaka 2:1 eftir að hafa lent 1:0 undir í annari umferð E-riðils Evrópumótsins í fótbolta í dag. Varamaðurinn Roman Yaremchuk var hetja Úkraínu í Düsseldorf.

Slóvakar unnu óvæntan sigur á Belgum, 1:0, í fyrstu umferð en Úkraína steinlá gegn Rúmeníu, 3:0. Hinn leikurinn í annarri umferð fer fram annað kvöld þegar Belgar mæta Rúmenum.

Rúmenía, Úkraína og Slóvakía eru því öll með þrjú stig í riðlinum en Belgar eru án stiga.

Serhyi Rebrov gerði fjórar breytingar á liði sínu frá tapinu gegn Rúmeníu á mánudag og skipti meðal annars um markvörð.

Slóvakar voru töluvert sterkari á upphafsmínútum leiksins. Lukas Haraslín átti gott skot út vítateignum eftir góðan einleik á tíundu mínútu en Anatolyi Trubin varði vel. Slóvakar héldu boltanum í leik og Ivan Schranz var óheppinn að koma boltanum ekki í netið af fjærstönginni eftir klaufagang í vörn Úkraínu en aftur varði Trubin vel.

Stanislav Lobotka var rifinn niður rétt fyrir utan vítateig eftir korters leik og Slóvakía fékk aukaspyrnu á hættulegum stað. David Hancko skaut föstu skoti í markmannshornið en aftur varði Trubin vel.

Slóvakía komst þó sanngjarnt 1:0 yfir á átjándu mínútu þegar Schranz skoraði með skalla af fjærstöng eftir fyrirgjöf Haraslin. Varnarleikur Úkraínu leit virkilega illa út og Trubin kom engum vörnum við. Þetta var annað mark Schranz á mótinu í jafnmörgum leikjum.

Ivan Schranz fagnar marki sínu af innlifun
Ivan Schranz fagnar marki sínu af innlifun AFP/Kenzo Triboiullard

Úkraínumenn komust í lofandi sókn tveimur mínútum eftir markið en Mykhailo Mudryk ákvað að skjóta frekar en að nýta liðsfélaga sína sem voru betur staðsettir og fór skotið himinhátt yfir markið.

Artem Dovbyk komst í gott færi eftir sendingu Mudryk á 28. mínútu og lék á varnarmann Slóvaka áður en hann skaut á markið en Peter Pekarík náði að skutla sér fyrir skotið áður og bjargaði Slóvökum.

Úkraínumenn voru aðgangsharðir í framhaldinu og SLóvakar sluppu með skrekkinn þegar skot Oleksandr Tymchyk hafnaði í stönginni. Martin Dubravka virtist ná örlítilli snertingu á boltann sem bjargaði líklega marki.

Oleksandr Zinchenko átti prýðilegt skot úr aukaspyrnu skömmu fyrir hálfleik en Dubravka varði vel og staðan 1:0 fyrir Slóvökum í leikhléi.

Artem Dovbyk var nálægt því að jafna metin fyrir Úkraínu
Artem Dovbyk var nálægt því að jafna metin fyrir Úkraínu AFP/Ozan Kose

Dovbyk skallaði langt framhjá úr fyrsta færi síðari hálfleiksins eftir glæsileg tilþrif og fyrirgjöf Mudryk. Mudryk lék skemmtilega á Pekarik og sendi fyrir markið en Dovbyk virtist misreikna boltann og skallaði með gagnauganu víðsfjarri markinu, einn og óvaldaður í teignum.

Einungis þremur mínútum síðar, á áttundu mínútu síðari hálfleik jöfnuðu Úkraínumenn í 1:1 eftir góða skyndisókn. Þar var á ferðinni Mykola Shaparenko eftir lága fyrirgjöf Zinchenko. Shaparenko átti gott hlaup af miðjunni og Arsenalmaðurinn fann hann einan í teignum og Shaparenko átti ekki í vandræðum með að afgreiða boltann framhjá Dubravka með föstu skoti í fyrstu snertingu.

Mykola Shaparenko fagnar jöfnunarmarki sínu
Mykola Shaparenko fagnar jöfnunarmarki sínu AFP/Alberto Pizzoli

 Leikurinn datt mikið niður í ákefð eftir jöfnunarmark Úkraínu en á 75. mínútu fengu þeir gott tækifæri til að taka forystuna. Mudryk skaut þá í stöngina úr þröngu færi eftir sendingu frá varamanninum Roman Yaremchuk en sending Yaremchuk var illa tímasett og hefði hann getað búið til töluvert betra færi fyrir liðsfélaga sinn.

Yaremchuk gerði þó allt rétt fimm mínútum síðar þegar hann kom Úkraínu í 2:1. Sabarenko gaf þá glæsilega sendingu afturfyrir vörn Slóvaka og Yaremchuk tók meistaralega við boltanum og lagði snyrtilega framhjá Dubravka í markinu.

Á annarri mínútu uppbótartíma datt boltinn fyrir fætur Dennis Vavro í vítateig Úkraínumanna en hann hitti boltann skelfilega og gott færi rann út í sandinn fyrir Slóvaka.

Úkraínumenn stóðu af sér áhlaup Slóvaka og fögnuðu góðum 2:1 sigri. Þetta voru fyrstu stig Úkraínu í mótinu en Slóvakar eru með þrjú stig eftir sigur á Belgum í fyrstu umferð. 

Roman Yaremchuk skoraði sigurmark Úkraínumanna
Roman Yaremchuk skoraði sigurmark Úkraínumanna AFP/Ozan Kose

Byrjunarliðin:

Slóvakía: (4-3-3)

Mark: Dubravka
Vörn: Pekarik, Vavro, Skriniar, Hancko (Obert 67.)
Miðja: Kucka, Lobotka, Duda (Strelec 60.)
Sókn: Schranz (Sauer 86.), Bozenik (Benes 60.), Haraslin (Suslov 67.)

Úkraína: (4-2-3-1)

Mark: Trubin
Vörn: Tymchyk, Zabarnyi, Matviyenko, Zinchenko
Miðja: Shaparenko (Talovierov 90+2., Sudakov, Brazhko (Sydorschuk 85.)
Sókn: Yarmolenko (Zubkov 67.), Dovbyk (Yaremchuk 67.), Mudryk (Malinovskyi 85.)

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 27. JÚNÍ

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 27. JÚNÍ

Útsláttarkeppnin