Slóvenía vann öruggan sigur gegn Slóvakíu, 37:24, í E-riðli Evrópumóts kvenna í handbolta í Innsbruck í Austurríki í kvöld.
Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, er á toppi E-riðils með fullt hús stiga en Slóvenía og Austurríki eru bæði með tvö stig í öðru og þriðja sæti. Slóvakía er án stiga á botni riðilsins.
Tjasa Stanko var markahæst fyrir Slóveníu með níu mörk. Tatiana Sutranova var markahæst í leiknum en hún skoraði 11 mörk fyrir Slóvakíu.
Norður-Makedónía og Tyrkland gerðu 25:25-jafntefli í A-riðli í Debrecen í Ungverjalandi.
Ungverjaland er á toppnum í A-riðli með fjögur stig, Svíþjóð í öðru sæti með tvö stig og Tyrkland og Norður-Makedónía eru í þriðja og fjórða sæti með eitt stig.
Sara Ristovska skoraði átta mörk fyrir Norður-Makedóníu og var markahæst í leiknum. Í liði Tyrklands var Emine Gokdemir markahæst með sjö mörk.