Hægri hornamaðurinn Þórey Rósa Stefánsdóttir vonast til þess að Ísland vinni sinn fyrsta leik á Evrópumóti frá upphafi þegar liðið mætir Úkraínu í annarri umferð F-riðils EM 2024 í handknattleik í Innsbruck í Austurríki annað kvöld.
Ísland tapaði 25:27 fyrir Hollandi í fyrstu umferð í gærkvöldi. Er mbl.is náði tali af henni í hádeginu í dag var íslenska liðið ekki búið að fara yfir úkraínska liðið.
„Nei, ég veit ekki neitt! Ég veit að nokkrar þeirra spila í Ungverjalandi, ég sá það á einhverjum lista hjá Ívari Ben [hjá Handbolta.is]! En annars vorum við bara að einbeita okkur að Hollendingum. Við erum ekki enn farnar að skoða Úkraínu.
Ég sá að markmennirnir voru að skoða skotin þeirra og hef heyrt frá starfsfólkinu að þetta er hörkulið og að ég held með bestu liðum sem við gátum fengið úr fjórða styrkleikaflokki. Við erum með þeim hérna á hótelinu, þær eru hávaxnar og flottar.
Þetta verður hörkuleikur en guð hvað ég hlakka til að mæta aftur inn á þennan völl með þennan stuðning og í þetta andrúmsloft sem var í gær. Þetta er bara veisla sem við ætlum að njóta til hins ítrasta,“ sagði Þórey Rósa.
Reynsluboltinn viðurkenndi að hún renni hýru auga til leiksins gegn Úkraínu þegar kemur að möguleikanum á því að kvennalandsliðið vinni loks sinn fyrsta leik frá upphafi á lokamóti EM.
„Já, við vorum nálægt því að ná í okkar fyrsta sigur á EM í gær. Ef ekki í gær, þá bara á morgun. Er það ekki?
Ég veit að þetta er klisja en við erum að horfa á okkur sjálfar og það gengur oftast best þegar þú ert að einbeita þér að þínum leik og ekki of mikið að pæla í andstæðingnum. Það er það sem við fórum inn með í gær og ætlum að gera aftur á morgun,“ sagði Þórey Rósa einnig.