„Það hefur bara gengið ágætlega,“ sagði Andrea Jacobsen, vinstri skytta Íslands í handknattleik um hvernig hafi gengið að leggja svekkjandi tap fyrir Hollandi á EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í gærkvöldi að baki sér.
„Ég held að ég tali fyrir allar að við vorum ógeðslega súrar eftir þennan leik, sem er kannski skrítin tilfinning því við bjuggumst kannski ekki beint við að vera fúlar yfir því að tapa á móti Hollandi.
Þetta er meira jákvætt en neikvætt myndi ég segja en á svona stórmótum verður maður bara að sleppa takinu daginn eftir. Maður má vera fúll í nokkra klukkutíma og síðan er bara áfram gakk,“ sagði Andrea í samtali við mbl.is á liðshótelinu í hádeginu í dag.
Næsti leikur er gegn Úkraínu annað kvöld en íslenska liðið var ekki komið svo langt að vera búið að skoða úkraínska liðið um hádegisbil.
„Nei, við erum ekki búnar að fá neinar upplýsingar. Við sáum bara niðurstöðuna í gær á móti Þýskalandi, sem segir okkur í rauninni ekkert af því að við vitum ekki hvar við stöndum á móti Þýskalandi. Því munum við í raun aðallega einbeita okkur að okkar leik,“ sagði hún.
Úkraína tapaði 30:17 í hinum leik F-riðils í gærkvöldi. Andrea reiknaði þó með því að farið yrði yfir lið Úkraínu síðar í dag.
„Já, eflaust. Addi [Arnar Pétursson landsliðsþjálfari] er örugglega með einhverjar klippur sem við förum yfir en fyrst og fremst held ég að það verði lögð áhersla á okkur sjálfar og sérstaklega hvað við þurfum að bæta úr síðasta leik.
Ef við spilum eins og á móti Hollendingunum þá held ég að við gætum haldið í við hvaða lið sem er,“ sagði Andrea og sagði Ísland vitanlega vonast til þess að vinna sinn fyrsta leik frá upphafi á Evrópumóti á morgun.
„Það væri rosalega gaman að ná sigri, hvað þá fyrsta sigrinum á EM en við verðum bara að sjá. Ég veit ekkert um þetta lið eins og er þannig að ég get ekkert sagt,“ sagði hún að endingu.