María Þórisdóttir, landsliðskona Noregs í knattspyrnu og dóttir Þóris Hergeirssonar, er yfir sig stolt af föður sínum eftir að hann stýrði norska kvennalandsliðinu í handknattleik til Evrópumeistaratitils í síðasta leik sínum við stjórnvölinn á sunnudag.
„Pabbi! Í dag lokaðir þú mögnuðum kafla í sögu norsks handknattleiks með öðru GULLI. Eftir 30 ár í handbolta og ótrúleg 15 ár sem landsliðsþjálfari bastu enda á feril sem hefur veitt heilli þjóð og öllum heiminum innblástur og spennu. Verðlaunapeningarnir tala sínu máli!
Það eru ekki bara verðlaunapeningarnir sem hafa vakið hrifningu mína, það sem veitir mér mest stolt er manneskjan sem þú hefur að geyma. Ástríða þín, rólegheit og hversu vitur þú ert í leiðtogahæfni þinni hafa haft áhrif á marga. Þú býrð yfir stórkostlegum eiginleika til þess að skilja aðra, skora þá á hólm og lyfta þeim upp á hærri stall,“ skrifaði María á Instagramaðgangi sínum.
Hún er leikmaður Brighton & Hove Albion í ensku A-deildinni en lék einnig handknatlteik á árum áður.
„Ég er ótrúlega stolt af þér pabbi. Ekki aðeins vegna þess sem þú hefur áorkað, heldur hvernig þú hefur verið leiðtogi, byggt lið upp og verið uppspretta hvatningar fyrir svo marga.
Alls 17 verðlaunapeningar sem landsliðsþjálfari, fjöldi sem fáir ef nokkrir geta jafnað.
Nú er kominn tími á nýja kafla og ný ævintýri og ég get ekki beðið eftir því að fá að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þig. Ég er viss um að þú munir negla það líka. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið handbolta! NÚNA geturðu endanlega komið heim sem kóngurinn sem þú hefur alltaf verið,“ bætti María við.