Liverpool endurheimtir tvo

Curtis Jones snýr aftur í lið Liverpool á morgun.
Curtis Jones snýr aftur í lið Liverpool á morgun. AFP/Paul Ellis

Tveir leikmenn Liverpool sem voru á meiðslalistanum verða klárir í slaginn á morgun þegar toppliðið fær botnlið Sheffield United í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu annað kvöld.

Miðjumaðurinn Curtis Jones hefur verið frá keppni vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í sigri gegn Brentford í deildinni þann 17. febrúar síðastliðinn.

Jones hefur æft án vandkvæða að undanförnu og greindi Jürgen Klopp frá því á fréttamannafundi í gær að hann yrði með á morgun.

Sömu sögu er að segja af Andy Robertson sem meiddist á ökkla í landsleikjahlénu í síðustu viku og missti því af 2:1-sigri á Brighton & Hove Albion um síðustu helgi.

Lykilmenn að snúa aftur

Klopp bætti því við að Wataru Endo væri tæpur fyrir leikinn annað kvöld en að vænta mætti þess að Alisson, Diogo Jota og Trent Alexander-Arnold myndu allir snúa aftur til æfinga að hluta í næstu viku.

Allir þrír hafa verið frá um skeið en færast nær endurkomu líkt og Stefan Bajcetic, sem hefur verið frá allt tímabilið vegna vaxtarverkja en hefur æfingar með aðalliðinu í næstu viku eftir að hafa að undanförnu æft með U21-árs liði Liverpool.

Loks minntist Klopp á að Joel Matip, sem sleit krossband í hné í byrjun desember, sé byrjaður að hlaupa en að of lítið sé eftir af tímabilinu ætli hann að eiga möguleika á því að spila aftur á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert