Postecoglou treystir stuðningsmönnum

Ange Postecoglou eftir síðasta leik Spurs.
Ange Postecoglou eftir síðasta leik Spurs. AFP/Glyn KIRK

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, gefur lítið fyrir samsæriskenningar um að stuðningsmenn liðsins vilji sjá Manchester City vinna á Tottenham Stadium á morgun.

Tapi Manchester City stigum á morgun er leiðin greið að Englandsmeistaratitlinum fyrir erkifjendur Tottenham í Norður-Lundúnum. Arsenal er stigi á undan City en hefur leikið einum leik meira. City jafnar leikjafjölda Arsenal á morgun og með sigri er bláa liðið í Manchester borg með pálmann í höndunum fyrir síðustu tvo leikina í deildinni.

Einhverjar kenningar hafa verið uppi um að stuðningsmenn Tottenham vilji frekar tapa á morgun en að hleypa Arsenal nær titlinum en Ange Postecoglou hefur ekki trú á þeim röddum.

„Ég trúi því ekki, ég held að stuðningsmenn okkar muni búa til sama andrúmsloft og þeir eru vanir í leikjum okkar. Ég mun ekki sitja hjá og horfa á þá vinna okkur“. Sagði Ástralinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert