Sex úrvalsdeildarfélög gætu sætt refsingu

Newcastle United og Aston Villa þurfa að rétta fjárhaginn af.
Newcastle United og Aston Villa þurfa að rétta fjárhaginn af. AFP/Tim Nwachukwu

Ensku úrvalsdeildarfélögin Chelsea, Aston Villa, Newcastle United, Everton, Nottingham Forest og Leicester City þurfa að selja leikmenn fyrir mánaðamót til þess að teljast ekki brotleg gagnvart reglum deildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri.

Everton og Forest sættu stigafrádrætti á nýafstöðnu tímabili vegna brota á þessum reglum. Í tilfelli Everton voru stig dregin af liðinu í tvígang.

Sky Sports greinir frá því að félögin sex hafi til mánaðamóta, þegar fjárhagsár nýafstaðins tímabils er á enda, til þess að rétta fjárhag sinn nægilega vel af með það fyrir augum að vera innan leyfilegra marka fyrir þrjú síðustu tímabil samkvæmt reglunum.

Mega ekki tapa meira en 105 milljónum punda

Úrvalsdeildarfélög verð að sýna fram á að tap þeirra nemi ekki meira en 105 milljónum punda á undanförnum þremur árum. Upphæðin er lægri ef félög, eins og Forest og Leicester, hafa ekki verið í úrvalsdeildinni öll þrjú árin.

Verði félögin sex ekki innan þessara marka um mánaðamótin mega þau eiga von á því að stig verði dregin af þeim á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert