Liverpool, United og Real slást um samherja Hákons

Leny Yoro, annar frá hægri, í leik með Lille gegn …
Leny Yoro, annar frá hægri, í leik með Lille gegn Aston Villa í átta liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í vor. AFP/Sameer Al-Doumy

Leny Yoro, átján ára gamall varnarmaður Lille í Frakklandi, er einn eftirsóttasti franski knattspyrnumaðurinn.

The Athletic á Englandi segir í kvöld að ensku félögin Liverpool og Manchester United séu afar áhugasöm um að fá Yoro í sínar raðir en talið sé að Evrópumeistarar Real Madrid eigi mesta möguleika á að krækja í piltinn.

Yoro hefur þegar leikið 60 leiki fyrir Lille og þar af spilaði hann 44 leiki á nýliðnu tímabili þegar Lille, með Hákon Arnar Haraldsson einnig innanborðs, hafnaði í fjórða sæti frönsku 1. deildarinnar og tryggði sér með því sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu síðsumars.

Yoro á eitt ár eftir af samningi sínum við Lille og talið er fullvíst að hann sé ekki tilbúinn til að framlengja hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert