Enskur landsliðsmaður leggur skóna á hilluna

Ryan Bertrand lék með Southampton um sjö ára skeið.
Ryan Bertrand lék með Southampton um sjö ára skeið. AFP

Ryan Bertrand, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í knattspyrnu, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Bertrand er 34 ára gamall.

Hann var síðast á mála hjá Leicester City en hafði verið félagslaus síðan hann fékk ekki nýjan samning hjá félaginu sumarið 2023.

Bertrand, sem lék sem vinstri bakvörður, ólst upp hjá Chelsea og vann þar þrjá stóra titla; Meistaradeild Evrópu árið 2012, ensku bikarkeppnina sama ár og Evrópudeildina árið 2013.

Hann lék með fjölda liða sem lánsmaður frá Chelsea, þar á meðal Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni. Langflesta leiki spilaði Bertrand hins vegar fyrir Southampton, alls 214 leiki í úrvalsdeildinni frá 2014 til 2021.

Lék hann 19 A-landsleiki fyrir England á ferlinum og var hluti af leikmannahópnum sem féll eftirminnilega úr leik á EM 2016 með tapi fyrir Íslandi í 16-liða úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert