Ætti að geta spilað gegn Arsenal

Phil Foden hefur lítið spilað í upphafi tímabilsins.
Phil Foden hefur lítið spilað í upphafi tímabilsins. AFP/Oli Scarff

Enski landsliðsmaðurinn Phil Foden er tilbúinn til að spila heilan leik á sunnudaginn þegar Manchester City og Arsenal mætast í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Foden hefur aðeins komið við sögu í einum af fyrstu fjórum leikjum City í deildinni á þessu tímabili en hann er að komast af stað eftir meiðsli.

Hann sat allan tímann á bekknum í sigri City á Brentford, 2:1, um síðustu helgi en spilaði síðari hálfleikinn þegar City gerði markalaust jafntefli við Inter Mílanó í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, sagði á fréttamannafundi í dag að þetta væru að sjálfsögðu gleðitíðindi, ekki síst vegna þess að Kevin De Bruyne væri eitthvað laskaður eftir leikinn við Inter.

„Allir þurfa að taka sér smá hlé. Hann var besti leikmaður deildarinnar síðasta vetur og við þurfum því á honum að halda. Ég hef þá trú að hann geti núna spilað heilan leik," sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert