Alisson, markvörður Liverpool, er tæpur vegna meiðsla fyrir leik liðsins gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á morgun.
Á fréttamannafundi í dag sagði Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, Brassann vera að glíma við vöðvameiðsli.
„Hann á í smá vandræðum með einn vöðva. Við veltum því fyrir okkur hvort þessi leikur komi of snemma fyrir hann eður ei.
Þetta gerðist fyrir leikinn gegn AC Milan en eftir þann leik fann hann meira til,“ sagði hollenski stjórinn.
Fari svo að Alisson geti ekki spilað á morgun mun Írinn Caoimhín Kelleher spila sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni frá því í apríl á þessu ári.
Leikurinn fer fram á Anfield og hefst klukkan 14.