„Hann hefur ekki heillað mig sem þjálfari“

Erik ten Hag.
Erik ten Hag. AFP/Paul Ellis

„Ajax-liðið var vel spilandi undir hans stjórn en auðvitað sá maður ekki marga leiki hjá liðinu að undanskildum þessum Evrópuleikjum,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu.

Halldór tók við þjálfun Blika í október á síðasta ári eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns Þorvaldssonar hjá félaginu frá árinu 2019 en liðið trónir á toppi Bestu deildarinnar með 49 stig líkt og Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík. 

Mikilvægt að United sé með gott lið

Halldór er stuðningsmaður Chelsea og fylgist vel með enska boltanum en Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur ekki heillað Halldór frá því hann tók við stjórnartaumunum á Old Trafford sumarið 2022.

„Hann hefur ekki heillað mig sem þjálfari,“ sagði Halldór.

„Ég átta mig ekki almennilega á því fyrir hvað hann stendur, og félagið í heild sinni. Það er ákveðin krísa hjá félaginu þegar kemur að gildum og einkennum þess, og fyrir hvað það stendur.

Ég vona innilega að þeir rífi sig upp úr þessu því það er mikilvægt fyrir deildina að Manchester United sé með gott lið,“ sagði Halldór meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert