Jafntefli niðurstaðan í ótrúlegum leik

Erling Haaland fagnar því að hafa komið City yfir í …
Erling Haaland fagnar því að hafa komið City yfir í leiknum. AFP/Paul Ellis

Manchester City og Arsenal skildu jöfn, 2:2, í ótrúlegum leik í stórleik fimmtu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

City fer því aftur á topp deildarinnar með 13 stig en Arsenal er með 11 stig í fjórða sæti.

Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun og var fjörugur alveg frá fyrstu mínútunum. Heimamenn byrjuðu betur og skoruðu fyrsta markið strax á 9. mínútu. Savinho fékk boltann þá hægra megin, fór inn á völlinn og þræddi Erling Haaland í gegn sem kláraði vel framhjá David Raya í marki Arsenal. 100. mark Norðmannsins fyrir Manchester City.

Sjö mínútum síðar varð City hins vegar fyrir áfalli. Liðið átti hornspyrnu þegar Rodri, líklega besti miðjumaður heims, féll til jarðar og hélt um hnéð. Rodri varð að fara af velli en hann haltraði út af með tárin í augunum og leit þetta alls ekki vel út.

Við þetta snerist leikurinn algjörlega en mínútu eftir skiptinguna var Arsenal búið að jafna. Þar var að verki Ítalinn Riccardo Calafiori en hann var í fyrsta sinn í byrjunarliði Arsenal. Boltanum var þá lyft upp í vinstra hornið, yfir Kyle Walker sem var alveg steinsofandi. Þar tók Martinelli vel við boltanum, rak hann að teignum áður en hann lagði hann út á Calafiori sem smellti honum glæsilega í fjærhornið alveg út við stöng.

Riccardo Calafiori jafnaði metin fyrir Arsenal í leiknum.
Riccardo Calafiori jafnaði metin fyrir Arsenal í leiknum. AFP/Paul Ellis

Gabriel, varnarmaður Arsenal, fékk dauðafæri til að koma sínum mönnum yfir á 38. mínútu. Bukayo Saka átti þá hornspyrnu á fjærsvæðið þar sem Gabriel fékk frían skalla en setti boltann yfir markið. 

Sjö mínútum síðar var síðan eins og væri verið að endursýna færið hjá Gabriel. Saka átti þá aðra nákvæmlega eins hornspyrnu nema í þetta skiptið gerði Gabriel engin mistök og stangaði boltann í netið af stuttu færi. Aftur var hann aleinn en Kyle Walker, sem átti að dekka hann, missti af honum um leið og Saka spyrnti boltanum fyrir.

Gabriel fagnar marki sínu í dag.
Gabriel fagnar marki sínu í dag. AFP/Paul Ellis

Á sjöundu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks dró svo til tíðinda. Leandro Trossard, sem spilaði sem fremsti maður Arsenal í leiknum, fékk þá sitt annað gula spjald og þar með rautt. Trossard keyrði þá harkalega í bakið á Bernardo Silva og sparkaði boltanum svo í burtu eftir að Michael Oliver hafði flautað aukaspyrnu. Virkilega óskynsamlegt hjá Belganum.

Seinni háfleikurinn var svo með þeim ótrúlegri sem maður hefur séð. Heimamenn voru tæplega 90% með boltann og Arsenal stillti liðinu upp með fimm varnarmenn og fjóra miðjumenn, þar sem allir leikmenn voru inni í eða við eigin teig. City átti ógrynni marktilrauna en megnið af þeim voru skot utan teigs og gæst þeirra hittu markið. Í þau fáu skipti sem City-menn hittu markið var David Raya vel vakandi og stóð sína vakt með mikilli prýði.

Það var hins vegar á áttundu mínútu uppbótartímans sem stíflan brast. Eftir hornspyrnu átti Mateo Kovacic skot úr teignum sem hrökk af bringunni á Jakub Kiwior og fyrir fætur John Stones sem ýtti boltanum yfir línuna.

Reyndist það svo gott sem síðasta spyrna leiksins og jafntefli því niðurstaðan í mögnuðum leik. City fer því líkt og áður sagði aftur á topp deildarinnar, með 13 stig en Arsenal er með tveimur stigum minna í fjórða sæti.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. City 2:2 Arsenal opna loka
90. mín. Hér er allt að verða vitlaust. Arsenal menn gera allt sem þeir geta til að tefja og City menn eru allt annað en sáttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert