Freyr orðaður við starf í ensku deildinni

Freyr Alexandersson gæti tekið við Cardiff.
Freyr Alexandersson gæti tekið við Cardiff. Ljósmynd/@kvkofficieel

Knattspyrnuþjálfarinn Freyr Alexandersson er einn þeirra sem kemur til greina sem eftirmaður Erol Bulut sem var rekinn frá Cardiff City í gær.

BBC greinir frá. Cardiff er í Wales en leikur í ensku B-deildinni. Liðið er í botnsæti deildarinnar með aðeins eitt stig eftir sex leiki, eftir 2:0-tap á heimavelli gegn Leeds á laugardag.

Freyr er sem stendur stjóri Kortrijk í Belgíu. Þar bjargaði hann liðinu ævintýralega frá falli á síðustu leiktíð, rétt eins og hann gerði með Lyngby í Danmörku þar á undan.  

Í grein BBC eru þeir James Rowberry, Steven Schumacher og Nathan Jones einnig nefndir sem mögulegir eftirmenn Bulut. 

Mikil tengsl eru á milli Kortrijk og Cardiff City því malasíski auðkýfingurinn Vincent Tan er eigandi beggja félaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert