Gríðarlegt áfall fyrir Manchester City

Rodri í baráttunni við Carlos Augusto í leik City og …
Rodri í baráttunni við Carlos Augusto í leik City og Inter Mílanó í Meistaradeildinni í síðustu viku. AFP/Paul Ellis

Rodri, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, er með slitið krossband og leikur ekki meira með Englandsmeisturunum á tímabilinu.

Það er spænski miðillinn Marca sem greinir frá þessu en Rodri, sem er 28 ára gamall, fór meiddur af velli í 2:2-jafntefli liðsins gegn Arsenal í stórleik 5. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í Manchester á sunnudaginn.

Rodri meiddist á hné á 21. mínútu og fór strax af velli en hann hefur verið lykilmaður í liði City, undanfarin ár, og liðið hefur tapað flestum stigum á undanförnum árum þegar Rodri hefur verið fjarverandi.

Manchester City á ennþá eftir að staðfesta tíðindin en liðið trónir á toppi deildarinnar með 13 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar.

Rodri gekk til liðs við Manchester City frá Atlético Madrid, sumarið 2019 fyrir 63 milljónir punda, og á að baki 260 leki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 26 mörk. Hann hefur fjórum sinnum orðið Englandsmeistari með City, einu sinni Evrópumeistari og einu sinni bikarmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert