Liverpool skoraði fimm gegn West Ham

Cody Gakpo skoraði tvívegis undir lokin fyrir Liverpool.
Cody Gakpo skoraði tvívegis undir lokin fyrir Liverpool. AFP/Paul Ellis

Liverpool hafði auðveldlega betur gegn West Ham United, 5:1, þegar liðin áttust við í þriðju umferð enska deildabikarsins í knattspyrnu karla á Anfield í Liverpool í kvöld.

West Ham náði forystunni á 21. mínútu þegar Jarell Quansah skoraði klaufalegt sjálfsmark.

Ekki leið á löngu þar til Diogo Jota jafnaði metin fyrir Liverpool með skalla af stuttu færi eftir skot eða sendingu Federico Chiesa á lofti.

Staðan var 1:1 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik bætti Jota við öðru marki sínu og Liverpool þegar hann lagði boltann í hornið vinstra megin úr vítateignum eftir laglega stungusendingu Curtis Jones.

Mohamed Salah, sem kom inn á sem varamaður, skoraði svo þriðja mark Liverpool á 74. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti annars varamanns, Alexis Mac Allister, sem Lukasz Fabianski í marki West Ham hafði varið út í vítateiginn.

Skömmu síðar, á 76. mínútu, fékk Édson Álvarez sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir ljóta tæklingu á Salah.

Einum fleiri bætti Liverpool við fjórða markinu á 90. mínútu þegar Cody Gakpo skoraði með föstu skoti vinstra megin úr vítateignum sem fór niður í bláhornið nær.

Gakpo var svo aftur á ferðinni á þriðju mínútu uppbótartíma þegar skot hans við vítateigslínuna vinstra megin fór af varnarmanni og þaðan í fjærhornið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert