Stigasöfnun Manchester United í ensku úrvalsdeildinni hefur aldrei verið verri eftir sex leiki síðan úrvaldeildin var sett á laggirnar árið 1992. BBC tók saman staðreyndir málsins.
Tímabil Manchester United hefur farið illa af stað og 3:0 tap liðsins á heimavelli gegn Tottenham í gær hefur gert það að verkum að veðbankar í Englandi telja Erik ten Hag vera líklegastan til að vera fyrstur knattspyrnustjóra deildarinnar til að vera rekinn úr starfi.
Liðið hefur aldrei fengið færri stig í fyrstu sex leikjum tímabils.
Aðeins einu sinni (tímabilið 2007-2008) hefur liðið skorað færri mörk í fyrstu sex leikjunum.
United hefur tapað tveimur leikjum í röð á heimavelli án þess að skora í fyrsta skipti síðan 2021 en þáverandi knattspyrnustjóri, Ole Gunnar Solskjær, var rekinn í kjölfar síðari leiksins.
United hefur tapað fleiri leikjum með þriggja marka mun síðan Alex Ferguson lét af störfum (tuttugu og þrisvar sinnum í 424 leikjum) heldur en alla stjórnartíð Skotans (tuttugu og tvisvar í 1,035 leikjum).
Liðið hefur einungis unnið þrjá af níu leikjum liðsins í öllum keppnum á tímabilinu og næstu tveir leikir liðsins eru á erfiðum útivöllum. Gegn Porto í Evrópudeildinni og Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni.