Breskir fjölmiðlar fullyrða að Erik ten Hag haldi starfi sínu hjá Manchester United út vikuna að minnsta kosti. Framundan eru erfiðir útileikir gegn Porto og Aston Villa.
Snautlegt tap Rauðu djöflanna gegn Tottenham á Old Trafford í gær þýðir að Manchesterliðið situr í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir sex leiki með einungis sjö stig. Einungis tveir sigrar og þrjú töp eru ekki ásættanleg á þeim bænum.
BBC hefur eftir áreiðanlegum heimildum innan félagsins að ten Hag verði knattspyrnustjóri United út vikuna að minnsta kosti en ten Hag skrifaði undir nýjan samning í sumar og stýrði liðinu til bikarmeistaratitils í vor.