Arsenal hafði betur gegn París SG, 2:0, þegar liðin mættust í stórleik 2. umferðar deildarkeppni Meistaradeildar karla í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í kvöld.
Arsenal gerði markalaust jafntefli við Atalanta frá Ítalíu í fyrstu umferð á útivelli en París SG sigraði Girona frá Spáni á heimavelli, 1:0.
Arsenal er þá með fjögur stig í deildinni en París SG er með þrjú. Bæði lið munu leika átta leiki.
Kai Havertz kom Arsenal yfir á 20. mínútu leiksins með frábæru skallamarki eftir laglega fyrirgjöf frá Leandro Trossard, 1:0. Þá stökk Þjóðverjinn á Ginaluigi Donnarumma markvörð Parísarliðsins og stangaði boltann í netið.
Bukayo Saka kom Arsenal í 2:0 á 35. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu. Þá ætlaði Saka að gefa boltann fyrir en hann fór í gegnum allan pakkann og loks í netið fram hjá aumum Donnarumma.
Parísarliðið sótti aðeins í sig veðrið í seinni hálfleik en náði ekki að ógna liði Arsenal nægilega mikið. Þá fékk Gabriel Martinelli einnig tvö góð færi til að bæta við mörkum hjá Arsenal.
Arsenal fær Southampton í heimsókn næstu helgi. Næstu mótherjar Arsenal í Meistaradeildinni eru Shakthar Donetsk frá Úkraínu en þá er einnig leikið í Lundúnum.
París SG heimsækir Nice næstu helgi en næstu mótherjar liðsins í Meistaradeildinni eru PSV frá Hollandi en þá verður leikið í Parísarborg.