Leikmaður City handtekinn

Rico Lewis og Matheus Nunes í leik með Manchester City …
Rico Lewis og Matheus Nunes í leik með Manchester City í síðasta mánuði. AFP/Darren Staples

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Matheus Nunes, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, var handtekinn í Madríd á Spáni í síðasta mánuði, grunaður um að hafa stolið síma á skemmtistað.

Spænska dagblaðið El Mundo greinir frá því að Nunes hafi verið handtekinn snemma morguns þann 8. september síðastliðinn. Var hann þá með síma 58 ára gamals karlmanns í sínum fórum.

Sá hafði reynt að taka ljósmynd af Nunes á salerni á skemmtistaðnum La Riviers í Madríd. Portúgalinn brást ókvæða við, gaf ekki leyfi fyrir að taka mynd af sér og tók símann af manninum.

Var Nunes færður í járn og við yfirheyrslu kom í ljós að hann væri enn með síma mannsins í fórum sínum. Dvaldi hann í fangaklefa um stund áður en lögmaður Nunes kom því í kring að honum yrði sleppt úr haldi.

Nunes, sem er 26 ára gamall, má eiga von á því að ákæra verði gefin út á hendur honum og að miðjumaðurinn þurfi að mæta fyrir rétt í Madríd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert