Alisson verður frá í nokkrar vikur

Alisson, markvörður Liverpool, missir af næstu leikjum liðsins.
Alisson, markvörður Liverpool, missir af næstu leikjum liðsins. AFP/Paul Ellis

Brasilíski markvörðurinn Alisson Becker, leikmaður Liverpool, verður frá vegna meiðsla í nokkrar vikur. Alisson tognaði aftan í læri í sigri Liverpool á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti tíðindin eftir leikinn í gær.

„Varðandi Alisson þá er það ljóst að hann verður frá í nokkrar vikur,“ sagði Slot.

Brasilíska knattspyrnusambandið staðfesti að Alisson verði ekki með liðinu í komandi leikjum gegn Síle og Perú og hefur markvörður Palmeiras, Weverton, verið kallaður í liðið.

„Læknateymi brasilíska landsliðsins hafði samband við Liverpool og fékk það staðfest að Alisson væri ekki hæfur til að spila komandi leiki fyrir Brasilíu,“ sagði í yfirlýsingu frá brasilíska knattspyrnusambandinu.

Mikið leikjaálag

Liverpool spilaði í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld og fékk liðið stutta hvíld því leikurinn gegn Crystal Palace var í hádeginu í gær.

„Kannski er þetta eitthvað sem enska knattspyrnusambandið ætti að skoða, ef þú spilar á miðvikudagskvöldi afhverju ertu þá settur á hádegisleik á laugardegi?

Eða þá að ég þurfi að standa mig betur og skipta mínútunum á milli leikmanna minna, kannski er þetta líka óheppni, ég veit það ekki,“ sagði Arne Slot þegar hann var spurður út í leikjaálagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert