Fundað hjá United og Tuchel gæti tekið við

Thomas Tuchel gæti tekið við Manchester United.
Thomas Tuchel gæti tekið við Manchester United. AFP/Ian Kington

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa fundað stíft í Lundúnum í dag og er eitt efni fundarins framtíð hollenska stjórans Erik ten Hag.

United hefur farið afar illa af stað á leiktíðinni og er sæti Hollendingsins orðið afar heitt. Manchester-liðið er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með átta stig eftir sjö leiki. Þá er liðið með tvö stig eftir tvo leiki í Evrópudeildinni.

Manchester Evening Standard greinir frá í dag að forráðamenn félagsins gætu snúið sér að Þjóðverjanum Thomas Tuchel og ráðið hann í stað ten Hag. Tuchel er án félags sem stendur, eftir að hann yfirgaf Bayern München eftir síðustu leiktíð.

United hefur ekki farið eins illa af stað í efstu deild í 35 ár. Til að bæta gráu ofan á svart hefur United aðeins skorað fimm mörk í sjö deildarleikjum hingað til. Aðeins Southampton í 19. sæti er með færri mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert