Hann verður hart leikinn á Anfield

Cole Palmer hefur þegar tekið einn bolta með sér heim …
Cole Palmer hefur þegar tekið einn bolta með sér heim á þessu tímabili, eftir að hafa skorað fjögur mörk fyrir Chelsea í leik gegn Brighton. AFP/Glyn Kirk

Cole Palmer, hinn ungi enski landsliðsmaður hjá Chelsea, á von á harkalegum móttökum þegar hann mætir með liði sínu á Anfield til að spila gegn Liverpool í í úrvalsdeildinni í fyrsta leik liðanna eftir landsleikjahléið í fótboltanum.

Þetta segir Gary Neville, knattspyrnusérfræðingur og fyrrverandi bakvörður Manchester United, en hann ræddi við NBC Sports um stórleik Liverpool og Chelsea sem eru í fyrsta og  fjórða sæti deildarinnar að sjö umferðum loknum.

Palmer hefur þegar skorað sex mörk og lagt upp fimm í níu mótsleikjum Chelsea á þessu tímabili og margir telja hann besta leikmann deildarinnar þessa dagana. Neville segir að leikurinn á Anfield verði stórt próf fyrir Palmer.

„Þú færð hvergi minna pláss til að athafna þig en á Anfield, þar er erfiðast að spila. Leikmenn Liverpool munu spila mjög fast á móti honum og reyna að sjá til þess strax frá byrjun að hann nái sér ekki á  strik.

Á Anfield máttu alltaf búast við því að vera tekinn dálítið í gegn, af áhorfendum og andrúmsloftinu á vellinum. Ég man alltaf eftir þeim leikjum sem ég spilaði á Anfield, það voru erfiðustu leikirnir. Fyrir lið Chelsea undir stjórn Enzo Maresca verður þetta gríðarleg áskorun og það verður mjög áhugavert að sjá hvernig því gengur,“ sagði Gary Neville.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert