Liverpool fór aftur upp í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með sigri á Chelsea, 2:1, á heimavelli sínum í dag. Liverpool er nú með 21 stig, einu meira en Manchester City. Chelsea er í sjötta sæti með 14 stig.
Leikurinn fór rólega af stað og var nær ekkert um færi fyrsta tæpa hálftímann, eða fram að 27. mínútu.
Liverpool fékk þá víti eftir að Levi Colwill tók Curtis Jones niður innan teigs. Mo Salah fór á punktinn, skoraði af öryggi og kom Liverpool í forystu.
Dominik Szoboszlai fékk gott tækifæri til að tvöfalda forskotið á 37. mínútu en hann missti jafnvægið í góðu færi og skaut laust og beint á Robert Sánchez í marki Chelsea.
Liverpool hélt svo að Salah fengi annað tækifæri á punktinum í uppbótartíma í fyrri hálfleik er Sánchez tók Jones niður innan teigs. John Brooks dómari dæmdi annað víti en eftir skoðun í VAR hætti hann við, þar sem Sánchez fór í boltann fyrst.
Chelsea fékk fá færi. Nicolas Jackson skaut í utanverða stöngina á 33. mínútu úr þröngu færi og Cole Palmer skaut yfir utarlega í teignum undir lok fyrri hálfleiks. Nær komst Chelsea ekki og var staðan í leikhléi því 1:0.
Það tók Chelsea aðeins þrjár mínútur að jafna í seinni hálfleik og það gerði Nicolas Jackson er hann slapp í gegn eftir glæsilega sendingu frá Moises Caicedo.
Aðeins þremur mínútum síðar kom Curtis Jones Liverpool aftur yfir með góðri afgreiðslu í teignum eftir fallega fyrirgjöf frá Mo Salah.
Liðunum gekk verr að skapa sér færi það sem eftir lifði leiks, Liveprool varði forskotið vel og sigldi eins marks sigri í höfn.