Íslandsvinurinn David James, sem lék í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu stærstan hluta ferilsins, vakti athygli þegar hann stóð í markinu á sínum gamla heimavelli Anfield í hálfleik Liverpool og Chelsea í deildinni í gær.
Aðal styrktaraðili Liverpool, bankinn Standard Chartered, hefur veg og vanda af góðgerðarsamtökunum Futuremakers, sem hjálpar börnum að fá jöfn tækifæri á hinum ýmsu sviðum.
Í gegnum Futuremakers fékk 11 ára piltur tækifæri til þess að skora úr vítaspyrnu gegn James fyrir framan Kop-áhorfendastúkuna á Anfield. Markvörðurinn, sem lék með ÍBV sumarið 2013, varði hins vegar vítaspyrnuna.
Pilturinn ungi fékk svo annað tækifæri til þess að skora framhjá James úr vítaspyrnu en aftur varði hann frá stráknum.
Áhorfendur á Anfield voru ekki hrifnir af því að James hafi varið báðar vítaspyrnurnar og bauluðu hástöfum á hann.
Myndskeið af því þegar James varði vítaspyrnurnar tvær má sjá hér:
David James turned into the villain as he saved TWO penalties from a young fan at half-time yesterday 😮🧤 pic.twitter.com/9j33DQk5FX
— Sky Sports Premier League (@SkySportsPL) October 21, 2024