Palmer þekkir ekki goðsögn Chelsea

Cole Palmer og Gianfranco Zola.
Cole Palmer og Gianfranco Zola. Ljósmynd/Samsett

Knattspyrnumaðurinn Cole Palmer, leikmaður Chelsea, er þakklátur fyrir að vera líkt við goðsögn félagsins, Gianfranco Zola, en þekkir þó lítið til Ítalans knáa.

„Ég veit að hann er goðsögn í FIFA [tölvuleiknum sem nú heitir EA Sports FC] þannig að hann hlýtur að hafa verið góður. Satt að segja sá ég hann aldrei spila.

Það segja allir að hann hafi verið frábær leikmaður þannig að ég þakka fyrir,“ sagði Palmer í samtali við Sky Sports eftir 2:1-sigur Chelsea á Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Ansi áþekkir leikmenn

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, var spurður út í þessi viðbrögð Palmers á fréttamannafundi eftir leikinn og hafði gaman af.

„Þetta er nákvæmlega það sem ég hef sagt ykkur. Ég held að Cole þekki ekki til Gianfranco. En þeir eru í fullri hreinskilni ansi áþekkir hvað gæði varðar.

Ég er frá Ítalíu þannig að ég þekki Gianfranco ansi vel. Það eina sem ég get sagt er að Gianfranco var gæðaleikmaður og Cole er það enn þá,“ sagði Maresca.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert