Slot leiðrétti misskilning

Darwin Núnez og Arne Slot faðmast eftir leikinn í gær.
Darwin Núnez og Arne Slot faðmast eftir leikinn í gær. AFP/Adrian Dennis

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, sló á létta strengi og útskýrði hvers vegna hann fékk gult spjald í jafntefli gegn Arsenal, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í gær.

„Síðast þegar ég fékk gult spjald sagði ég að ég hefði fullkomlega verðskuldað það en í þetta sinn fannst mér ég ekki verðskulda það,“ sagði Slot á fréttamannafundi eftir leikinn.

Honum þótti leikmenn Arsenal liggja full mikið í jörðinni og sagði misskilnings hafa gætt vegna pirrings yfir því.

„Þeir voru svo oft í jörðinni, ég álasa þeim ekki fyrir það því það getur gerst í fótbolta, en þeir duttu alltaf niður þegar þeir voru með boltann og það dró orkuna úr leiknum að mínu mati.

Ég sagði við Ibou [Ibrahima Konaté]: „Þetta er helvítis grín!“ Fjórði dómarinn hélt að ég hefði sagt það við hann: „Þú ert helvítis grín!“

Það er alls ekki það sem ég sagði en ég fékk gult spjald fyrir það. Því er ég kominn með tvö gul spjöld og þess vegna þarf ég að gæta mín framvegis,“ bætti hollenski stjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert