„Ég get ekki séð að um sé að ræða augljós mistök dómarans,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen í Vellinum á Síminn Sport þegar rætt var um vítaspyrnuna sem West Ham fékk í uppbótartíma í leik liðsins gegn Manchester United í 9. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á sunnudaginn.
Leiknum lauk með sigri West Ham, 2:1, en Jarrod Bowen skoraði úr spyrnunni og tryggði West Ham dýrmætan sigur á lokamínútum leiksins.
„Það er eitt stórt spurningamerki af hverju Michael Oliver er að senda dómarann í skjáinn,“ sagði Eiður Smári.
„Ég held að hann sé ennþá að efast um þetta atvik og fyrir utan það er þetta aldrei víti fyrir mér,“ sagði Eiður Smári meðal annars.