Slot tjáir sig um brottrekstur ten Hags

Arne Slot og Erik ten Hag.
Arne Slot og Erik ten Hag. AFP/Paul Ellis

Hollendingurinn Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur tjáð sig um ákvörðun erkifjendanna í Manchester United um að reka landa sinn Erik ten Hag úr starfi eftir rúmlega tveggja ára starf.

Man. United tilkynnti um ákvörðun sína í gær og leitar nú að nýjum stjóra.

„Hann er hollenskur knattspyrnustjóri og það gerir þetta enn erfiðara fyrir mig og okkur sem Hollendinga. Hugur manns leitar alltaf fyrst og fremst til manneskjunnar. Við sem erum í þessu starfi vitum allir að þetta getur gerst.

En þegar þetta gerist, og sérstaklega þar sem ég þekki hann aðeins og veit hversu hart hann leggur að sér, þá er það auðvitað mjög leitt fyrir hann að fá þessar fréttir. En við vitum, sérstaklega við sem erum frá Hollandi, hversu vel hann gerði með Ajax og að hann vann tvo bikara hér á Englandi.

Ég held að við munum sjá hann hjá stóru félagi aftur í nánustu framtíð. Harmleikur er aðeins of sterkt orð en þetta eru mikil vonbrigði fyrir hann og fjölskyldu,“ sagði Slot á fréttamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert