Portúgalinn Rúben Amorim verður næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United.
Það er breski miðillinn Manchester Evening News, staðarmiðillinn í Manchester, sem greinir frá þessu en Amorim hefur stýrt Sporting í heimalandi sínu.
Hollendingnum Erik ten Hag var sagt upp störfum sem stjóra liðsins í gær og var Amorim strax nefndur til sögunnar sem hugsanlegur arftaki hans.
Amorim var einnig sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Liverpool þegar Jürgen Klopp tilkynnti það í nóvember á síðasta ári að hann myndi hætta með liðið í sumar.
Rúben Amorim, sem er 39 ára gamall, hefur stýrt Sporting frá árinu 2020 og hefur gert liðið tvívegis að portúgölskum meisturum á þeim tíma.
United hefur ekki farið vel af stað á tímabilinu og er með 11 stig í 14. sæti úrvalsdeildarinnar, sjö stigum frá fallsæti og 12 stigum minna en topplið Manchester City.