Brighton tók á móti Liverpool í 16-liða úrslitum enska deildarbikarsins í kvöld. Spilað var á Amex leikvanginum í Brighton og endaði leikurinn með sigri Liverpool, 3:2.
Það myndi teljast vera lygi ef undirritaður reyndi að halda því fram að fyrri hálfleikurinn hafi verið skemmtilegur, það var hann svo sannarlega ekki.
Tariq Lamptey fékk besta færi heimamanna á 13. mínútu þegar Simon Adingra setti hann í gegnum vörn Liverpool. Lamptey náði skoti að marki en Vitezlav Jaros, markvörður Liverpool, kom vel út á móti og varði skot Lamptey.
Dominik Szoboszlai fékk besta færi gestanna í fyrri hálfleik á 33. mínútu þegar Andrew Robertson lagði boltann út í teiginn á Ungverjann sem náði skoti en Jason Steele, markvörður Brighton varði vel. Frákastið endaði síðan hjá Luis Díaz sem reyndi að skalla boltann að marki en skalli hans fór framhjá markinu.
Meira markvert gerðist hreinlega ekki í afar daufum fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var ekki nema 49 sekúndna gamall þegar Cody Gakpo skoraði frábært mark fyrir gestina. Tyler Morton setti boltann þá upp vinstri kantinn á Gakpo sem lék boltanum inn á vítateig heimamanna áður er hann lét vaða að marki. Skotið hjá Hollendingnum var frábært og söng boltinn í netinu, óverjandi fyrir Jason Steele í marki heimamanna.
Á 49. mínútu komst Tariq Lamptey upp hægri kantinn og átti flotta fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Simon Adingra náði góðum skalla að markinu. Skallinn var á leið í markið en Jaros í marki gestanna varði frábærlega og náði að slá boltann í stöngina og út þar sem varnarmenn Liverpool náðu að hreinsa boltann frá.
Cody Gakpo tvöfaldaði forystu Liverpool á 63. mínútu þegar hann vann boltann af Tariq Lamptey og rak hann inn á vítateig heimamanna. Hollendingurinn hafði menn við hliðina á sér en ákvað að láta vaða á nærstöngina og Jason Steele átti ekki möguleika á að verja skotið.
Jarrell Quansah, miðvörður Liverpool, gerði sig sekan um slæm mistök á 81. mínútu þegar hann gaf boltann frá sér í vörn gestanna. Sending hans endaði hjá Evan Ferguson sem náði fínu skoti að marki Liverpool sem Jaros varði út í teiginn. Þar náði Simon Adingra að átta sig fyrst og kom hann boltanum í netið, staðan orðin 1:2.
Á 85. mínútú fékk Luis Díaz boltann inni á teig heimamanna. Díaz náði að búa sér til nægt pláss til að ná skoti á nærstöngina. Skotið var gott og fór í stöngina og inn, óverjandi fyrir Steele í marki heimamanna.
Heimamenn neituðu að gefast upp og á 90. mínútu minnkaði Tariq Lamptey muninn þegar hann átti skot fyrir utan teig sem hafði viðkomu í Jarrell Quansah. Jaros var lagður af stað í hitt hornið og stóð varnarlaus í markinu þegar boltinn rúllaði framhjá honum í markið.
Brighton liðið reyndi hvað það gat til að jafna leikinn en tókst það ekki og Liverpool er því komið áfram í 8-liða úrslit enska deildarbikarsins.