Markaveisla í fyrsta leik án ten Hags

Bruno Fernandes og Casemiro gerðu tvö mörk hvor.
Bruno Fernandes og Casemiro gerðu tvö mörk hvor. AFP/Darren Staples

Manchester United er komið í átta liða úrslit deildabikars karla í fótbolta eftir stórsigur á Leicester á heimavelli, 5:2, á Old Trafford í Manchester í kvöld.

Var leikurinn sá fyrsti hjá United eftir að Erik ten Hag var vikið frá störfum í byrjun vikunnar. Ruud van Nistelrooy stýrði Manchester-liðinu í kvöld.

Casemiro og Alejandro Garnacho komu United í 2:0 á fyrstu 28 mínútunum en Bilal El Khannouss minnkaði muninn á 33. mínútu. Aðeins þremur mínútum síðar kom Bruno Fernandes United-liðinu í 3:1.

Casemiro gerði fjórða markið þremur mínútum eftir það, áður en Conor Coady minnkaði muninn fyrir Leicester í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Aðeins eitt mark var skoraði í seinni hálfleik og það gerði Fernandes með sínu öðru marki.

Arsenal er einnig komið áfram eftir sigur á Preston, 3:0, á útivelli. Gabriel Jesus, Ethan Nwaneri og Kai Havertz skoruðu. Stefán Teitur Þórðarson lék allan leikinn með Preston.

Þá vann Newcastle sigur á Chelsea á heimavelli, 2:0. Alexander Isak gerði fyrra markið á 23. mínútu og seinna markið var sjálfsmark þremur mínútum síðar.

Loks bar Crystal Palace sigurorð á Aston Villa, 2:1. Eberechi Eze og Daichi Kamada gerðu mörk Palace. Jhon Durán gerði mark Villa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert