City tapaði - Forest upp fyrir Arsenal

Fyrsta tap Manchester City á tímabilinu kom í dag.
Fyrsta tap Manchester City á tímabilinu kom í dag. AFP/Justin Tallis

Manchester City tapaði óvænt gegn Bournemouth, 2:1, í 10. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.

Antoine Semenyo kom heimamönnum yfir á níundu mínútu. Staðan 1:0, Bournemouth í vil í hálfleik.

Brasilíumaðurinn Evanilson tvöfaldaði forystu Bournemouth á 64. mínútu. Josko Gvardiol minnkaði muninn fyrir City á 82. mínútu.

City situr í öðru sæti deildarinnar með 23 stig en Bournemouth er í áttunda sæti með 15 stig.

Forest upp í þriðja sæti

Nottingham Forest vann þriðja leik sinn í röð er liðið lagði West Ham, 3:0, á heimavelli í dag.

Hinn sjóðheiti Chris Wood skoraði fyrsta mark leiksins á 27. mínútu. Undir lok fyrri hálfleiks fékk Edson Alvarez, leikmaður West Ham, sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Callum Hudson-Odoi skoraði annað mark Forest á 65. mínútu. Ola Aina gerði endanlega út um leikinn á 78. mínútu með marki.

Sigurinn þýðir að Forest fer upp fyrir Arsenal í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig. West Ham er í 14. sæti með 11 stig.

Jafnt í nýliðaslagnum

Ipswich og Leicester gerðu 1:1-jafntefli í nýliðaslagnum í dag.

Leif Davis kom Ipswich yfir á 55. mínútu. Ipswich varð manni færri á 77. mínútu þegar Kalvin Phillips fékk rautt spjald.

Jordan Ayew jafnaði metin fyrir Leicester á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

Ipswich er í 18. sæti deildarinnar með fimm stig. Leicester er með 10 stig í 15. sæti.

Fyrsti sigur Southampton

Fyrsti sigur Southampton kom í dag er liðið hafði betur gegn Everton, 1:0, á suðurströndinni í dag.

Adam Armstrong skoraði sigurmarkið á 85. mínútu. Beto jafnaði metin fyrir Everton undir lok leiks en markið var dæmt af.

Southampton er í næstneðsta sæti deildarinnar með fjögur stig. Everton er í 16. sæti með níu stig.

Liverpool vann að lokum öflugan 2:1-sigur gegn Brighton á Anfield í dag. Mbl.is fylgdist vel með leiknum í beinni textalýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert