Salah skaut Liverpool á toppinn

Mohamed Salah, hetja Liverpool, fagnar marki sínu í dag.
Mohamed Salah, hetja Liverpool, fagnar marki sínu í dag. AFP/Darren Staples

Liverpool tók á móti Brighton í 10. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Leikið var á Anfield í Liverpool og endaði leikurinn með sigri Liverpool, 2:1.

Eftir leikinn er Liverpool í efsta sæti deildarinnar með 25 stig en Brighton situr í sjöunda sæti með 16 stig.

Fyrsta mark leiksins kom á 14. mínútu þegar að Kaoru Mitoma átti fyrirgjöf sem hafði viðkomu í Danny Welbeck áður en boltinn endaði hjá Tyrkjanum, Ferdi Kadioglu. Sá lét vaða að marki og var skotið frábært og fór í stöng og inn, óverjandi fyrir Caoimhín Kelleher, markvörð Liverpool.

Ferdi Kadioglu fagnar marki sínu ásamt Yasin Ayari í dag.
Ferdi Kadioglu fagnar marki sínu ásamt Yasin Ayari í dag. AFP/Darren Staples

Gestirnir voru nálægt því að tvöfalda forystu sína á 27. mínútu þegar Yasin Ayari átti flotta sendingu innfyrir vörn Liverpool. Þar var mættur Georginio Rutter og náði hann að halda varnarmönnum Liverpool frá sér áður en hann náði skoti að marki en Kelleher varði mjög vel og bjargaði heimamamönnum.

Meira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleiknum sem var algjör eign gestanna frá Brighton og leiddi liðið sanngjarnt þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik.

Það var allt annað að sjá til Liverpool liðsins í seinni hálfleik, liðið sótti mun meira og var mun hættulegra.

Það bar árangur á 70. mínútu þegar Cody Gakpo jafnaði fyrir Liverpool. Hann fékk þá boltann úti vinstra megin og gaf boltann fyrir markið. Darwin Nunez reyndi að skalla boltann að marki en hann hitti ekki boltann, það kom ekki að sök því boltinn endaði í fjærhorninu og allt orðið jafnt.

Liðsmenn Liverpool fagna marki Cody Gakpo í dag.
Liðsmenn Liverpool fagna marki Cody Gakpo í dag. AFP/Darren Staples

Tveimur mínútum síðar var Liverpool liðið komið yfir en þá fékk Curtis Jones boltann á miðjum vellinum og hljóp með hann upp völlinn. Hann gaf boltann út til hægri á Mohamed Salah sem fór framhjá Pervis Estupinan og lét vaða að marki og boltinn söng í fjærhorninu, gjörsamlega óverjandi fyrir Bart Verbruggen í marki Brighton. Endurkoman fullkomnuð og Liverpool komið yfir, 2:1.

Leikmenn Brighton reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en það gekk ekki eftir þannig að Liverpool menn fögnuðu sigri og er liðið nú komið aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Liverpool 2:1 Brighton opna loka
90. mín. Georginio Rutter (Brighton) á skot sem er varið Rutter fær boltann eftir hornspyrnuna. Hann er með hann utarlega í teignum og lætur vaða en Kelleher ver auðveldlega. Ekki besta ákvörðun Rutter á ferlinum þarna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert