Enska götublaðið The Sun segir frá því að enski dómarinn David Coote hafi reynt að skipuleggja „eiturlyfjapartí“ skömmu fyrir leik Tottenham Hotspur og Manchester City í enska deildabikarnum í lok október.
Blaðið birti í vikunni myndskeið sem virðist sýna Coote sniffa hvítt duft, sem talið er að sé kókaín.
Rætt er við félaga Cootes sem segir hann hafa bókað herbergi á Travelodge hóteli í Lundúnum 37 mínútum áður en leikur Tottenham og Man. City átti að hefjast, en þar var Coote fjórði dómari.
11 mínútum fyrir leik hafi hann sent félaga sínum skilaboð um að búið væri að bóka herbergi. Coote hafi svo sent félaganum önnur skilaboð í hálfleik.
„Á leikdegi var hann endalaust að senda mér skilaboð þar sem hann vildi halda eiturlyfjapartí eftir leikinn hjá Spurs. Hann bókaði ekki hjá Travelodge fyrr en rétt áður en leikurinn hófst og lét svo vita af bókuninni 11 mínútum áður en leikurinn hófst.
Þetta var klikkað. Erling Haaland var á bekknum hjá City og ég var að horfa á þá tvo hlið við hlið í sjónvarpinu. Rétt áður og eftir sendi hann mér skilaboð. Þegar hann sendi mér skilaboð í hálfleik fannst mér það svo súrrealískt.
Væntanlega hefði hann átt að vera að einbeita sér að leiknum í stað þess að skipuleggja eiturlyfjapartí,“ sagði maðurinn í samtali við The Sun og bætti því við að ekkert hafi orðið af partíinu, sem Coote hafi verið svekktur með.