Franski knattspyrnumaðurinn mun ekki æfa með sínu fyrrverandi félagi Manchester United eftir að hann rifti samningi sínum við Juventus á Ítalíu á dögunum.
Það er talkSport sem greinir frá þessu en Pogba, sem er 31 árs gamall, hefur verið orðaður við endurkomu til Englands undanfarna daga.
Pogba gekk til liðs við United árið 2009 og lék með unglingaliði félagsins til 2012 þegar hann samdi við Juventus. Hann snéri svo aftur til Englands árið 2016 og lék með United út keppnistímabilið 2021-22.
Pogba var úrskurðaður í fjögurra ára keppnisbann af ítalska lyfjaeftirlitinu vegna lyfjamisferlis á síðasta ári en Alþjóðaíþróttadómstóllinn stytti bann Pogba í 18 mánuði fyrr á þessu ári.
Hann getur því byrjað að keppa á nýjan leik í mars á næsta ári og hefur meðal annars verið orðaður við félög í bæði Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu.