Útisigrar og jafntefli þema dagsins

Úlfarnir fögnuðu afar mikilvægum sigri í dag.
Úlfarnir fögnuðu afar mikilvægum sigri í dag. AFP/Adrian Dennis

Fimm leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta nú rétt í þessu. Við fylgdumst náið með leik Arsenal og Nottingham Forest í beinni textalýsingu þar sem Arsenal vann sannfærandi þriggja marka sigur, 3:0.

Brighton vann sterkan útisigur á Bournemouth, 1:2. Joao Pedro og Kaoru Mitoma skoruðu mörk gestanna áður en David Brooks minnkaði muninn fyrir heimamenn í uppbótartíma. Carlos Baleba , leikmaður Brighton, fékk að líta rauða spjaldið í leiknum en það kom ekki að sök. Eftir leikinn er Brighton í 5. sæti en Bournemouth er í 13. sæti.

Wolves vann þá frábæran útisigur á Fulham, 1:4. Alex Iwobi kom Fulham yfir áður en Úlfarnir snéru við taflinu. Matheus Cunha skoraði tvívegis, Joao Gomes og Goncalo Guedes skoruðu mörk gestanna frá Wolverhampton. Eftir sigurinn er Wolves komið upp úr fallsæti en liðið situr í 17. sæti en Fulham er í 9. sætinu.

Aston Villa gerði 2:2 jafntefli á heimavelli gegn Crystal Palace. Ismaila Sarr kom Crystal Palace yfir áður en Ollie Watkins jafnaði fyrir heimamenn. Justin Devenny skoraði annað mark gestanna áður en Ross Barkley jafnaði aftur fyrir Aston Villa. Eftir leikinn er Aston Villa í 7. sæti deildarinnar en Crystal Palace er í 18. sæti.

Loks gerðu Everton og Brentford markalaust jafntefli þar sem Hákon Rafn Valdimarsson sat allan tímann á varmannabekk Brentford. Danski landsliðsmaðurinn Christian Nörgaard fékk rautt spjald í liði Brentford á 41. mínútu. Eftir leikinn er Brentford í 10. sæti en Everton er í því 15.

Öll úrslit:

Arsenal - Nottingham Forest 3:0
1:0 - Bukayo Saka, 15. mín
2:0 - Thomas Partey, 52. mín
3:0 - Ethan Nwaneri, 86. mín

Bournemouth - Brighton 1:2
0:1 - Joao Pedro, 4. mín
0:2 - Kaoru Mitoma, 49. mín
1:2 - David Brooks, 93. mín
Rautt spjald: Carlos Baleba, 59. mín

Fulham - Wolves 1:4
1:0 - Alex Iwobi, 20. mín
1:1 - Matheus Cunha, 31. mín
1:2 - Joao Gomes, 53. mín
1:3 - Matheus Cunha, 87. mín
1:4 - Goncalo Guedes, 95. mín

Aston Villa - Crystal Palace 2:2
0:1 - Ismaila Sarr, 4. mín
1:1 - Ollie Watkins, 36. mín
1:2 - Justin Devenny, 45. mín
2:2 - Ross Barkley, 77. mín

Everton - Brentford 0:0
Rautt spald: Christian Nörgaard, 41. mín

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert