Mikel Arteta, knattspyrnustjóri karlaliðs Arsenal, varaði Liverpool við að gott gengi liðsins muni ekki endilega endast.
Liverpool hefur farið virkilega vel af stað í ensku úrvalsdeildinni og er á toppnum með átta stiga forskot eftir tólf umferðir.
Arsenal, sem hefur verið í titilbaráttu tvö síðustu tímabil, var með góða forystu á toppnum tímabilið 2022-23 en tapaði henni niður á lokametrunum.
„Við höfum verið þarna og að halda svona góðu gengi áfram stanslaust í tíu mánuði er mjög erfitt.
Hvort sem það eru úrslit, meiðsli eða aðrar ákvarðanir þá getur allt breyst á einni stundu. Við verðum að vera klár í það,“ sagði Arteta á blaðamannafundi í gær.
Hann var síðar spurður hvort hann trúi því að Arsenal geti enn unnið deildina.
„Já, ég hef mikla trú á liðinu mínu,“ svaraði Arteta.