Lykilmaður missir af tíu til tólf leikjum

Wesley Fofana skallar boltann í baráttu við Ollie Watkins í …
Wesley Fofana skallar boltann í baráttu við Ollie Watkins í leik Chelsea og Aston Villa í gær. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnuliðið Chelsea varð fyrir áfalli í gær þegar franski varnarmaðurinn Wesley Fofana fór meiddur af velli í sigri liðsins á Aston Villa, 3:0.

Fofana, sem hefur verið í stóru hlutverki í varnarleik Chelsea í vetur, meiddist á slysalegan hátt þegar hann var að reyna að stöðva Ollie Watkins, framherja Aston Villa, og steig á boltann með þeim afleiðingum að hann tognaði aftan í læri.

Fofana hefur verið í byrjunarliði Chelsea í öllum leikjum vetrarins í úrvalsdeildinni, nema hvað hann missti af leiknum gegn Liverpool vegna leikbanns.

„Eins og hann hefur spilað undanfarið er þetta mikill missir fyrir okkur. Svona meiðsli þýða þriggja til fimm vikna fjarveru og á þessum tímapunkti kostar það hann tíu til tólf leiki,“ sagði Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, samkvæmt BBC.

Fofana er 23 ára gamall og kom til Chelsea frá Leicester fyrir tveimur árum. Hann hefur leikið einn A-landsleik fyrir Frakkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert