Ange Postecoglou, knattspyrnustjóra Tottenham, var heitt í hamsi eftir að lið hans tapaði 1:0 fyrir Bournemouth á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld.
Eftir að flautað hafði verið til leiksloka rauk Ástralinn í áttina að hópi stuðningsmanna Tottenham, sem höfðu látið í ljós óánægju með frammistöðu liðsins, og átti orðaskipti við þá áður en vallarstarfsmenn gripu inn í og fengu stjórann til að róa sig og ganga til búningsherbergja.
„Þeir eru vonsviknir og hafa allan rétt á því. Ég fékk bein skilaboð frá þeim sem ég tek til greina. Ég var ekki ánægður með þau orð sem féllu þarna því ég er mannlegur, en maður verður að ráða við það.
Ég hef verið nógu lengi í þessum bransa til að vita að þegar illa gengur þarftu að skilja óánægjuna og vonbrigðin. Og þeir eiga allan rétt á þessum vonbrigðum því við vorum með tökin á þessum fótboltaleik og misstum þau. En þannig er þetta og ég tek því.
Ég get bara sagt að ég er virkilega vonsvikinn og staðráðinn í að koma hlutunum í lag hjá liðinu,“ sagði Ange Postecoglou en Tottenham er dottið niður í 10. sæti úrvalsdeildarinnar eftir tapið og er með 20 stig, einu minna en Bournemouth sem fór upp í 9. sætið.